mánudagur, júní 27, 2005

Kvöldþátturinn.

Mikið rosalega þykir mér vænt um þennan nýja kvöldþátt hans Guðmundar Steingrímssonar á sjónvarpsstöðinni Sirkus. Rökræðan í kvöld var góð, Gunnar í krossinum með klassíker um homma og lesbíur, andstæðingar hans héldu þó ró sinni furðu vel, spurning hvort menn séu bara farnir að vorkenna þeim gamla. Lítur þó allavega út fyrir að maður geti haft eitthvað gagn og gaman af þessum þætti í sumar.

Það var loksins að almennilegur spjall-þátta stjórnandi fannst, maður sem talar á manna máli við menn um málefni annað en greyið hann Gilli Smart. Muniði ekki eftir laugardagskvöldunum hjá honum? Á stundum þá leið mér eins og það væri járntjald á milli hans og gestanna. Oft á tíðum þá sagði gestur þáttarins frá einhverju mikilvægu sem snertir við hjarta hvers lifandi manns, í slíkum samtölum átti greyið hann Gísli það til að flissa eilítið og brosa svo tómlega. Guðmundur á hinn bóginn er greinilega í góðum tengslum við tilveruna. Innihaldið er gott strax á öðrum degi og það getur ekki annað en lofað góðu fyrir framtíðina. Dýrð sé Guðmundi hinum góða, nú skulum við öll vona að hann haldi stabílli og snarpri samfélagsrýni áfram gangandi í þættinum, afþví að það er svoooooo gaman!!

.

Mánudagurinn.

Þá er hann kominn aftur blessaður mánudagurinn.

föstudagur, júní 24, 2005

Nýtt blogg.

Við þurfum að reyna eitthvað annað, eitthvað nýtt. Prófum einu sinni að dansa öll saman, það getur varla sakað að prófa það. Það getur verið vitlaust að festast í hugarfari gærdagsins, taka á móti deginum í dag með viðhorfi sem einu sinni var. Horfum á morgun sólina stíga til himins og syngjum fyrir hana öll í einum kór, það getur varla sakað að reyna það. Pælum öll saman í því bara í eitt skipti, hversvegna ekki? Eða kannski bara ekki, æji þið ráðið.

.

mánudagur, júní 20, 2005

Kaninn í Keflavík.

Hvern einasta virka morgun ferðast ég yfir landamæri Íslands og Bandaríkjanna, ég veifa passanum mínum að 19 ára pilti sem stendur tignarlegur með M-16 í hönd, þegar hann gefur merki þá heldur rútan áfram. Inni á stöð má sjá skemmur, sumar eru yfirgefnar en aðrar eru í notkun íslenskra fyrirtækja sem þjónusta stöðina. Þarna er ógrynni af litlum íbúðar blokkum sem allar eru eins að flestu leyti. Deifð og tilbreitingarleysi virðist á einhvern hátt skína utan af byggingunum, steypan fer alltaf í sama mótið og svo er klónað, allt er eins og allir eru eins.

Veitingastaðurinn Three flags er til vinstri, Subway til hægri. Vinstri, hægri, upp og niður, one, two, three, four, at ease warrior! Hey! og svo sé ég þarna tugi einkennisklæddra hermanna sem éta, og éta, og éta sig svo feita af þrefaldri "Biggies" Wendy's máltíð. oft á tíðum er þarna um að lítast eins og í litlum yfirgefnum draugabæ, þá velti ég því fyrir mér, hvar leika börnin sér? Eru þau í tölvunni að drepa Bin Laden? Eða kannski inni í sjónvarpinu að fela sig fyrir ógurlegu öskri orrustuþotunnar sem svífur og svífur, hvað sprengir hún næst?

Á morgun hitti ég kanann í Keflavík.

.

laugardagur, júní 18, 2005

Foel.

Alveg eins og í gær og daginn þar áður þá vaknaði hún Foel upp af tiltölulega værum blundi um leið og haninn hann Gogolak gaulaði sitt þriðja hanagal. Þennan morgun var andrúmsloftið á engan hátt frábrugðið andrúmslofti allra þeirra þúsunda morgna sem hún hafði áður upplifað. Þúsund morgnar, þúsund augnablik sem öll höfðu verið alveg nákvæmlega eins. Þessvegna ályktaði Foel réttilega að í dag gæti hún hagað sér nákvæmlega eins og alla aðra daga, hún var örugg.

.

mánudagur, júní 13, 2005

Lífið.

Hversvegna ég skrifa titilinn hér að ofan er mér hulin ráðgáta. Það er samt einhvernveginn eins og lífið sjálft hafi beðið mig um að gera því einhver skil. Það virðist vera að það sé eitthvað inni í mér og í umhverfi mínu sem vill skilgreina lífið og setja fegurð þess í fallegan texta. En nú þegar ég er byrjaður að skrifa og ætla mér að verða við ósk míns eigins sjálfs þá virðist ég vera kjaftstopp. Það er eins og hugsanir mínar nái ekki að tengast fingrunum á lyklaborðinu, þetta er allt í kollinum en fingurnir skilja ekki hugann.

Ég dáist af þeim sem geta gert lífinu sönn skil á pappír, þeir sem geta komið sér að kjarnanum og sýnt hann tæran og ómengaðann eru sannir meistarar. Það einfaldasta er yfirleitt það fallegasta, þegar öll aukaatriði eru látin flakka þá hef ég fundið fyrir sannri fegurð, þannig vil ég alltaf hafa það. Lífið núna er tært og hreint, núna er klukkan 00:56 og ég sit og hlusta á Cardigans rétt áður en ég leggst í bólið. Hérna er enginn annar en ég og rödd Ninu Persson sem syngur fallega tóna fyrir mig. Þessi stund er lífið. Eigiði gott líf.

.

þriðjudagur, júní 07, 2005

X'ian?

Ég fór í kínverskt nudd í gær með þeim Valgeiri og Steingrími. Það var sérstakt að leyfa smávöxnum kínverja að ganga á bakinu á sér, lemja fast á lappirnar og toga loks í fingurna svo fast að það small í þeim. Menn voru ekki sammála um gæði þjónustunnar, en ég var svona ágætlega sáttur með þessa lífsreynslu, er hinsvegar ekki viss um að ég geri þetta að vikulegri rútínu, líklegast aðeins of dýrt til þess.

Við ræddum það félagarnir á leiðinni heim að þrátt fyrir mismikla ánægju okkar með þetta nudd þá væri þetta hreinlega lífs-nauðsynlegt, þ.e.a.s. það að prófa eitthvað af öllu því sem hægt er að gera hér á landi og erlendis. Það er viss stemming í því að upplifa eitthvað framandi, að prófa það þó svo að hugur manns hafi kannski aldrei áður japlað á slíkri hugmynd. Maður þarf að opna hugann eilítið fyrir nýjum hugmyndum, og leyfa öllu að flæða inn, drattast svo af stað og láta vaða. Hver veit, kannski finnur maður það sem er hvergi annars staðar að finna. Við verðum að fara að kýla á það krakkar, engar áhyggjur, gerum það bara núna, strax.

.