miðvikudagur, september 29, 2004

Gifting?

Steini Mark er sá nýjasti í li(n)k(a)ud-bandalagi Burkmeisters, og óska ég honum til hamingju með þann heiður. Annars var ég að enda við það að baka pezzu hérna heima, tók gömlu reynsluna frá Dóminó's á þetta og slappaði þrjár gómsætar pizzur, virkilega hressandi allt saman, en einnig alveg einstaklega óspennandi, ég veit það. Ég fór einnig til hennar Helenu og sótti frönsku glósur hjá henni vegna þess að ég er að fara í próf á föstudaginn, sem er reyndar þegar að er gáð frekar ómerkilegt líka. Ætla á ladsþing UVG um helgina sem haldið verður á Akureyri, það er stuð.

Gifting á næsta leyti, Ætla að fara að vinna í því að fara að gifta mig á næstu vikum eða mánuðum, það gengur vonandi upp....



föstudagur, september 24, 2004

Ástin mun sundra okkur að eilífu.

Þú komst á vondum tíma, jarðvegurinn hafði ekki verið undirbúinn fyrir slíka heimsókn. Það að planta svo miklum gróðri niður á svo viðkvæman skika er frekar shjeikí og hvað þá ef allt er rifið upp örskotsstundu síðar. Hversvegna plantar þú gróðri þínum hérna og svo allt í einu þarna? Rífur allt í burtu jafnóðum, skilur eftir ónýtan jarðveg og drullusvað? Skítugur drullu-pittur þar sem óreiða ríkir, hann hefur verið rifinn, saxaður, pressaður, buffaður með hamri, hakkaður, illa lyktandi pitturinn, ekkert, ekkert nema sundrung og skítafnykur. Svekktur er ég að finna fyrir því að þetta skuli ekki vekja neina athygli, öllum er sama, allt er rólegt og ég kveð með Mudzikk hangandi yfir höfði, bleddzzzzzz.



miðvikudagur, september 15, 2004

Breytt plan, heimsreisa á næsta ári, hefst í ágúst með Sigganum og munum við ferðast í ár. Síberíuhraðlestin er að freista okkar nú sem stendur, að hefja ferðina á því væri frekar magnað, fara í gegnum Mongólíu og enda þá ferð í Peking, taka svo Kína í gegn og halda svo áfram eitthvert......allur pakkinn verður tekinn, allt það besta sniffað og sogið í sig reynsluna. Steinþór hefur skotið því upp að hann muni jafnvel joina okkur einhversstaðar á leiðinni, það gæti verið annsi ferskt. Þetta gæti nefnilega orðið annsi fersk ferð og það gæti annsi mikið átt sér stað í slíkri ferð, og það merkilegasta er að eftir tæplega ár verð ég lagður af stað í slíka ferð, það er frekar fjarstæðukennt og fjarlægt, en gaman verður að lesa þessa færslu í Peking í svona sirka lok sept á næsta ári.



föstudagur, september 10, 2004

"Burkus og Tulli" eru nýjasta og heitasta plötuspilara par landans í dag, vildi bara koma því á framfæri að nú erum við að fara að hefja túr sem hefst á næsta fimmtudag á Borgarholtsskóla busa ballinu, þar verðum við með svo trillta stemmningu að annað eins þekkist hvorki fyrr né seinna, ef ekki þá skal ég "hengdur verða".



heimska helvíti!!!

Stundum langar mér að vera sérvitur og haga mér alveg nákvæmlega eins og frumsjálf mitt myndi gera ef það hefði yfirhöndina. Ég þoli ekki að fara eftir asnalegum reglum umhverfisins þar sem fólk talar saman á kurteisan máta um nákvæmlega ekki neitt. Samfélagið er gegnsýrt af kurteisi og umburðarlyndi, það má aldrei segja sannleikann vegna þess að þá er hætta á því að særa einhvern eða eitthvað asnalegt.

Það er ekki langt í það að svona heimur verður svo gegnum-rýrður af öllum sannleika að það verður ekki neitt eftir nema yfirborðskennd og kurteisislegt hjal um ekkert sem skiptir máli. Það má ekki tala um neitt af alvöru vegna þess að það getur haft einhver áhrif á "stöðugleikann og öryggið" sem allir dýrka og dá. Heilu Kastljós þættirnir fara í nákvæmlega ekki neitt og fræðsluþættir á Ríkissjónvarpinu eru í algjörri útrýmingarhættu. Það er eins og fólk vilji ekki neitt sem skipti máli lengur, fólk horfir bara á Ibiza uncovered eða eitthvað í þeim dúr og er ánægt með lífið, þetta er svo firrt að ég gæti hoppað upp í rassgatið á mér. Nú veit ég það alveg að ég á ekki að láta aðra hafa áhrif á það sem ég hugsa og ég á náttúrulega bara að hugsa um sjálfan mig og vera sáttur með það sem ég geri......

En það er ég bara ekki og ég er bara ósáttur með mig og umhverfi mitt vegna þess að það er firrt og heimskulegt. Við lifum í einhverjum ofverndurheimi þar sem við þurfum ekki að horfast í augu við neitt sem er virkilega að gerast í heiminum en er samt nátengt okkur. Við kaupum Nike skó afþví að okkur finnst þeir flottir jafnvel þó að við vitum að 6 ára börn í Kína séu látin þræla út í verksmiðjum Nike frá morgni til kvölds fyrir örfáar krónur. Við eigum svo mikið af orðum yfir hlutina í heiminum sem við skiljum samt ekki rassgat um, við tölum og tölum í nafni lýðræðis fyrir bættum heimi en tökum svo þátt í því að keyra hryllingin yfir aðrar þjóðir. Við segjum hitt og þetta en orð okkar eru ekkert nema innihalslaust gaul út í hið óendanlega, við tökum ekkert á málunum sem skipta mestu máli, við bara böbblum eitthvað um þau, Rétt eins og ég er að gera núna með því að berja og berja fast á þessu vestræna borði.



mánudagur, september 06, 2004

Hvert er annars planið Börkus??

Planið mitt fyrir þetta ár er ennþá á teikniborðinu en vinnslan er á fullu og vonandi fer eitthvað að skýrast sem fyrst. Ég er semsagt utanskóla í Borgó núna og hef tekið að mér að klára frönsku 403, náttúrufræði 113 og íþróttir 501 og 601, þegar ég hef klárað það þá er ég orðinn stúdent á pappírunum og mun fá hattinn þann 18. desember. Með skólanum mun ég starfa í leikskólanum Brekkuborg þar sem ég tekst á við dagleg vandamál barna á aldrinum 3-5 ára, það tekur á. Þetta verður skrítið haust og öðruvísi en ég hef vanist áður, ákveðin biðstaða sem mér finnst ekki vera neitt ofsalega skemmtileg né þá spennandi.

Hins vegar er framhaldið svo frekar óráðið en það er ljóst að ég stefni á einhverskonar utanför eftir áramót, það myndi þá vera í febrúar eða mars sem ég myndi leggja af stað. Ein hugmynd er að skrá sig í spænskuskóla í byrjun mars og vera þar í einhvern mánuð, leggja svo af stað í einhverskonar flakk um evrópu, byrja meðfram miðjarðarhafinu, kíkja kannski yfir til Marokkó og Egyptalands, aðallega vegna þess að mér finnst virkilega spennandi að komast í einhver kynni við arabískan kúltúr. Það gæti verið gaman að taka balkanskagan eitthvað í gegn eftir það, skoða Króatíu betur og halda svo kannski eitthvað upp í austur evrópu lönd eins og Rúmeníu eða eitthvað, mætti jafnvel skoða þann möguleika að kíkja til Rússlands. En þetta er allt óljóst og ég mun líklegast leggja einn af stað í þessa för þannig að þetta ræðst bara, ég er svo léttur á því og geggjaður að ég gæti allt eins endað í sjálfboðastarfi í Tadsjikistan eða þá bara sem hirðingi í Mongólíu, hver veit?

Líklegasta plan í framhaldi af ferð minni er svo háskólanám í Kaupmannahöfn eða þá í Árósum. Þar mun ég að öllum líkindum stúdera stjórnmálafræði og jafnvel taka eitthvað aukafag með, sagnfræði eða kannski eitthvað tungumál. B-planið er svo Háskóli Íslands en það fer bara allt aftir fjárhagsstöðu og ytri aðstæðum hvort ég leggi stund á nám erlendis eða þá hér. Ég get þá allavega verið sammála sjálfum mér um það að næsta ár verði annsi viðburðarríkt og er mjög spennandi til þess að hugsa.



miðvikudagur, september 01, 2004

Ég hef fundið mig knúinn til þess að rita eitthvað nýtt á bloggsíðu mína. það er ávallt leiðinlegt að pína sig til bloggskrifta en það kemur fyrir að svoleiðis verður maður að gera. Af illri nauðsyn sit ég þessvegna hér fyrir framan tölvuskjáinn inni í svefnherbergi foreldra minna og reyni að láta mér detta eitthvað í hug til þess að rita niður á þessa síðu, það reynist mér erfiðara en ég hélt í byrjun.

Á stöku stundu finnst mér eins og ég hafi öðlast dýpri skilning á raunveruleikanum, það eru merkileg augnablik, þeim gleymi ég ekki. Þá finnst mér eins og hjartað taki við sér og lifni við af löngum dvala, það lifnar yfir mér og ég finn fyrir lífskrafti sem ég finn ekki fyrir nema á slíkum stundum. Sannleikurinn, það er það besta sem maður kemst í tæri við, þegar maður snertir á sannleikanum þó að það sé ekki nema í örskotsstund þá nægir það til þess að halda í manni lágmarks lífsneista. Augnablik sannleikans geta verið svo tær og fullkomin að maður þráir fátt annað en að komast þangað aftur og svo aftur, það er einhver þrá, það er eitthvað sem kallar og kallar á sannleikann........