miðvikudagur, maí 26, 2004

Skrítið

Það er margt skrítið. Sumt er minna skrítið en annað. Stundum eru skrítnir hlutir minna skrítnir en maður bjóst við af þeim, stundum er allt skrítið og stundum ekki. Það skrítnasta við þetta allt er lífið sjálft.

Fjölbreytni í starfi

Störf mín tvö þetta sumarið eru mjög svo ólík. Annarsvegar vinn ég á leikskóla og hinsvegar er ég að keyra út hjá Nings. Kynnist fullt af litlum krílum og leik mér með þeim á daginn en keyri svo niðrá Suðurlandsbraut og tek við núðlum hjá Ping Lao og keyri þeim út. Fjölbreytilegt og þroskandi hvort á sinn hátt, ég kynnist svo sannarlega einhverju nýju í sumar og það er ekkert nema flott. Nema þá að Ping Lao og litlu krílin séu eins og allt annað sem ég hef nú þegar komist í kynni við.....nahhh ég efast samt um það....


sunnudagur, maí 23, 2004

Sami þungi og sama líf en samt hefur eitthvað breyst á stuttum tíma. Á stuttum tíma geta hjólin snúist og haldið í snaröfuga átt við það sem maður taldi í fyrstu. Það er þá, fyrst þá sem maður tekur eftir því að maður er þátttakandi í síbreytilegum heimi, þá tekur maður eftir því að maður er partur af síbreytilegu lífi. Spurningin er hinsvegar, var þessi snúningur til góðs eða ills?


Yfir höfðinu á mér hangir óútskýranlegur þungi sem deifir öll skilningarvit. Þegar ég lýt til himins sé ég hvorki stjörnur né mána, þar er ekkert nema dimmur þungi skýjanna sem gnæfir yfir öllu og öllum.


fimmtudagur, maí 20, 2004

Karlremba, með eða á móti?

Við tókum þann pól í hæðinni að mæla með Karlrembu í ræðukeppni gegn Verslunarskóla Íslands á næsta fimmtudag. Verslunarskólaliðið verður skipað nýjum og komandi ræðuskörungum rétt eins og lið okar, eini maðurinn með Morfís reynslu í þessari keppni verður stumminn okkar, Lilli B. Keppnin fer fram á Kúbbnum hérna í Voginum á næsta fimmtudag klukkan 18:00, ferlega spennandi fyrir mig, veit ekki með þig.

Azucar, cacahuetes, jarabe de glucosa, leche descremada en polvo, mantega de cacao, grasa vegetal, endurecida, pasta de cacao, lactosia, grasa de mantequilla, sueros lacteos en polvo, sal, emulgente, clara du huevo, proteina de leche hidrolizada, aroma, harina.

Spurning dagsins: Hvaðan er þessi innihaldslýsing?


mánudagur, maí 17, 2004

Hið fullkomna frelsi

Ég fylgi vindinum eftir götum bæjarins, við ferðumst saman í gegnum bæinn á þægilegum hraða og ég virði fyrir mér lífið með auga vindsins. Það er sérkennilegt að sjá heiminn á sífellu ferðalagi, geta ekki treyst á neinn samastað, verða bara að fljóta um og ferðast í sífellu, það er skrýtið hlutskipti en það er óneytanlega þægilegt. Ég fer í hringi yfir tjörninni, leik mér við endurnar sem taka vel í vindgustinn og ég þýt svo áfram og tek að mér ný og spennandi verkefni. Við hringsnúumst saman og það er ekki neitt sem fær stjórnað okkur, við stjórnum örlögum okkar algjörlega, við stjórnum því sem við gerum. Frelsið sem ég finn fyrir er algjört, það er enginn sem sér mig og það er enginn sem veit af mér nema ég sjálfur, ég er sá eini sem hef áhrif á hvaða stefnu ég tek og ég flýg um bæinn án þess að hafa nokkuð fyrir því.

Þó svo að mér finnist þægilegt að sjá heiminn eins og vindurinn þá neyðist ég á endanum til þess að sjá hann með sömu augum og allir hinir, ég neyðist til þess að lifa sama lífi og allir hinir og ég neyðist til þess að kveðja vindinn sem hefur verið mér svo góður og leyft mér að finna fyrir frelsinu sem hann upplifir dag hvern, ég verð að kveðja frelsið vegna þess að frelsið er ekki ætlað mér. Eitt það erfiðasta sem sérhver maður þarf að ganga í gegnum er að vera sviptur frelsinu. Ef þú hefur upplifað fullkomið frelsi þá sættirðu þig ekki við neitt annað, það er það eina sem þú þráir, það er það eina sem þú villt upplifa. Það er erfitt að fá að finna fyrir hinu fullkomna frelsi aðeins til þess að fá að vita það að hlutskipti manns verður ekki að upplifa slíkt frelsi í lífinu.


laugardagur, maí 15, 2004

Valli lennti illa í því í gærkvöldi þegar hann hljóp niður tröppurnar á hinum margfræga Kontóri. Kallin missteig sig svo hrapalega að hann endaði á slysó og í dag þá er hann bæklunarsjúklingur, ég varð að fara í Kaupstaðinn og versla í matinn fyrir hann þar sem hann er lokaður inni á hækjum og getur ekki hreyft á sér rassgatið.


föstudagur, maí 14, 2004

Allt

er

ekkert

og

ekkert

er

allt


þriðjudagur, maí 11, 2004

Nýjar kosningar, nýjir tímar....

Fjölmiðlafár og fjölmiðlafrumvarp er eitthvað sem fáir geta látið fram hjá sér fara á þessum ferksu og nýjungagjörnu tímum. Bjarni Ben kemur fram í sjónvarpið og reynir að tyggja eldgamla tyggjóklessu uppí opið geðið á landsmönnum og heldur að allir gleypi svo við þessu ógeði. Og ofan á allt saman þá kann maðurinn ekki einu sinni að koma fyrir sig orði, þetta er málhaltasti stjórnmálamaður sem ég hef séð í sjónvarpi, bullari frá helvíti. "Ungir og ferskir menn" voru kosnir á þing til að koma "ferskri" rödd inn á þingið, þessir menn segja svo ekki neitt þegar það á að setja lög á sem beinast beint gegn öllum þeirra hugsjónum.

Og hvað var það með Jónínu Bjartmars í framsókn að vera almennt á móti fasíska útlendingafrumvarpinu en kjósa samt með því af því að hún er partur af "liði" framsóknar. Hver er það sem á að stjórna í svona liði? Ef formaður flokksins hefur ákveðna skoðun eiga þá allir hinir að gera eins og hann? Það á að rifta þingi eins og skot og kjósa aftur, það er algjörlega óhæft fólk á þingi!! Ég Jón Bjarki Magnússon bið um nýjar kosningar núna strax!!

Ég hef fengið vinnu!!! Gatnamálstjóri sjálfur hefur ákveðið að leyfa mér að aðstoða sig í sumar, mikill léttir var það að fá vinnu. Beggi ætlar að plögga mér, Sigga og Grjóna í hópinn sinn þannig að þetta ætti allt saman að verða gaman. Þannig að næsti mánuður verður flottur, sumarskóli og gatnamál-nett kombó það.


sunnudagur, maí 09, 2004

fokkfokkfokk fokkings fokk!

Þetta herbergi er lokað og þetta herbergi er læst. Ég er fastur hér inni og ég get ekkert gert. Það er sama hvað ég reyni og það er sama hvað ég geri ég mun aldrei komast út úr þessu herbergi, herbergið er ég og ég er herbergið. Skynjun mín á heiminum er skynjun mín á þessu herbergi, heimurinn er þetta herbergi og fyrir mér er ekkert þar fyrir utan vegna þess að ég kemst ekkert út og ég sé ekkert út. Hvað getur maður gert þegar maður verður að sætta sig við það að húka hér inni ævilangt? Ég neyðist til að sætta mig við lífið eins og það er, ég neyðist til að sætta mig við heiminn eins og hann er og ég geri mér grein fyrir því að lífið er þetta búr sem að ég er í. Eina leiðin út er í gegnum huga minn og ég get skynjað eitthvað annað óháð efnislega herbergisheiminum, það er eina leiðin mín út út búrinu, eina leiðin út úr hlekkjum heimsins.




þriðjudagur, maí 04, 2004

Búinn í prófum!!

........Við tekur atvinnuleysi í einhvern tíma og svo vinna í einhvern tíma og svo líklegast sumarskólinn. Vorið er tíminn þar sem ég bíð eftir sumrinu en held samt alltaf að það sé komið. Svo fer ég út en þá er skítkalt, svo fer ég inn en þá langar mér út afþví að það lítur út fyrir að vera svo hlítt úti, af þessum ástæðum nenni ég ekkert að blogga að vori og því síður að sumri. Sumarið er tíminn segja menn vitrir jafnt sem óvitrir, það segja þeir vegna þess að í sumrinu sjá þeir vonina, það vaknar allt til lífsins og stundum er eins og að "nýtt upphaf" eigi sé stað í byrjun sumars. Menn bíða og bíða eftir upphafinu en ekkert gerist og ekkert breytist, þá fá þeir leið á þessu vori og þessu sumri og þeir bíða eftir dimmum vetrinum vegna þess að kannski er þar að finna einhvern vonarneista.

Svona gengur þetta hring eftir hring þar til að maðurinn er ekkert annað en rotnandi lík sem er enn að bíða eftir nýju upphafi, enn að bíða eftir einhverju sem aldrei var. Framtíðin er ávallt björt en núið virðist alltaf vera hálf gallað, hvers vegna veit ég ekki en þetta virðist af einhverjum ástæðum stundum vera svona. Þessvegna sit ég hér og bíð eftir sumrinu sem verður að öllum líkindum ekkert betra en seinustu mánuðir og ekkert verra heldur, sumarið verður ábyggilega bara svona venjulegt og látlaust og ég mun gera einhvað venjulegt og látlaust eins og mér einum er lagið. Húrra fyrir því að vorið sé komið!!!


laugardagur, maí 01, 2004

Játningar Bush!!

Hérna er skemmtileg ræða frá George Bush, ræðan hefur verið sett saman á skemmtilegan hátt þannig að loksins er þessi forseti Bandaríkjanna samkvæmur sjálfum sér, mjög gaman að hlusta á þetta.