miðvikudagur, apríl 28, 2004

CENTURY

Bókin Century er án efa besta klósettbók sem nokkur fróðleiksfús maður gæti hugsað sér. Í bókinni eru hvorki meira né minna en 1236 blaðsíður og það eru myndir á nær hverri einustu blaðsíðu. Bókin spannar 20. öldina út í gegn, ljósmyndir frá hverju ári fyrir sig eru svo á hverri blaðsíðunni á fætur annarri og einnig er smá texti undir hverri mynd sem útskýrir hana nánar. Það er fátt betra en að skella sér á dolluna og virða fyrir sér ljósmyndir frá uppreisninni í Ungverjalandi árið 1956 og fræðast eilítið um það ár í leiðinni. Ég vil hér með þakka Steinþóri fyrir að hafa gefið mér þessa bók í jólagjöf jólin 2002, þetta er gjöf sem heldur áfram að gefa mér eitthvað allt mitt líf, svo lengi sem ég hef hægðir.

Þessa dagana eru hugsanir mínar ekki á réttum stað, ég hugsa ekki um annað en að klára skólann. Ég er svekktur vegna þess að ég er slugsi og þar af leiðandi klára ég ekki fyrr en um næstu jól en ég er hins vegar spenntur fyrir þeim tíma. Ég mun reyna að vinna eins mikið og mér gefst færi til í sumar og svo mun ég reyna að vinna eitthvað með skólanum næsta haust. Áætlun mín felst í því að safan aurum fyrir utanlandsför sem ég mun svo fara í um eða eftir áramótin, það er það eina sem ég hugsa um þessa dagana. Ég ætla mér aðeins að taka með mér bakpokann minn og eitthvað af fötum, svo mun ég fara af stað eitthvert......

Og af því tilefni að ég hef tjáð lesendum hvert ég stefni þá hef ég komið með nýja skoðanakönnun þar sem ég spyr hvert lesendur stefna, um að gera að tékka á því.



mánudagur, apríl 26, 2004

Ég vil byrja á því að senda heillakveðjur til Steingó í Paragvæ, vona að hann hafi það sem best þar kappinn sá. Annars er ég að rembast eins og rjúpan við staurinn við það að reyna að byrja á því að sækja skólabækur ofan í tösku en ég hef mig ekki í það af einhverjum óskiljanlegum ástæðum. Hversvegna á maður erfiðara með það að byrja á því að læra, því lengur sem maður dregur það? Óskiljanlegur fjandi, algjörlega óskiljanlegur en virðist samt vera óhagganleg staðreynd á þessum bæ.

Svo er maður auðvitað líka að reyna að semja eitthvað á móti "öllu" fyrir keppnina á fimmtudaginn næstkomandi. Það er alveg fáránlegt að semja eitthvað um þetta efni, á móti "öllu". En það eru óvinir að lesa þess a síðu þannig að ég gef ekki meira upp.

Ég horfði bæði á Ísland í dag og Kastljós áðan, hef á tilfinningunni að meginþorri landsmanna sé á móti þessu fjölmiðlafrumvarpi vegna þess að meiri hluti fólks sér að þetta er beinlínis persónulegt mál forsætisráðherra. Kannski væri eðlilegt að setja einhverskonar lög sem koma í veg fyrir of mikla eignaraðild stórfyrirtækja í fjölmiðlum, vandamálið er bara það að pólitíkin er farin að snúast um persónulegar dyttur eins einstaklings. Ég held að landsmönnum sé farið að lítast illa á þá staðreynd, allavega þykir mér mikil ólykt af þessu máli.


Einu sinni var maður. Hann var góður. Aðrir menn voru vondir. Góði maðurinn vildi hjálpa öllum vondu mönnunum. Vondu mönnunum leið ekki vel. Góða manninum leið rosalega vel. Góða manninum fannst leiðinlegt að hinum mönnunum liði illa. hann vildi hjálpa vondu mönnunum. Þeir vildu ekki hjálp. Vondu menninrir brenndu góða manninn. Þegar góði maðurinn var dáinn þá hlógu vondu mennirnir. Það góða leit aldrei dagsins ljós á nýjan leik. Það góða hvarf eftir að góði maðurinn hvarf.

(aldrei gera góðum mönnum mein)


laugardagur, apríl 24, 2004

Umræðuefnið á fimmtudaginn verður "allt" og við í palestínska ræðulandsliðinu mælum á móti en Synir Sharons mæla með, keppnin fer fram klukkan 20:00 uppi í Borgó og það er en ekki ljóst hverjir verða að dæma. Þetta verður eflaust hörkuspennandi keppni og umræðuefnið e rekki af verri endanum, ég er bara orðinn frekar spenntur fyrir þesari keppni ;)


Kántrí söngkonan Wynonna Judd er ekki sátt með líf sitt, hún er of feit og hún hefur ekkert sjálfsálit þrátt fyrir það að eiga metsöluplötu, Oprah ætlar að reyna að hjálpa henni í sjónvarpinu. Dimmi-ter-ing-in var sniðug en samt ekkert of sniðug, ég var eini súmóglímukappinn á svæðinu og allir hinir einhverjir Garfíldar. Það var skemmtilegast í matnum, þar talaði ég við Kristján Ara um merk málefni, hann er sniðugur kall, talaði líka við marga aðra um merk málefni, margir voru sniðugir kallar.


Maður uppsker eins og maður sáir segir Steinþór Helgi og ég er sammála honum en stundum er uppskeran ekki þess virði að maður eigi að hafa fyrir því að sá.


sunnudagur, apríl 18, 2004

Jæja Einar er fegurri en Ragnar, það er dómur kjósenda og það er óhagganleg niðurstaða. Einar fékk 49 atkvæði en Ragnar aðeins 41.


föstudagur, apríl 16, 2004

Sagðu honum það sem ekkert veit, segðu honum það sem ekkert skilur.

fimmtudagur, apríl 15, 2004

Umheimurinn/Gerviheimurinn

Keppni Einars og Ragga er hnífjöfn og spennandi, Einar er tveimur atkvæðum yfir, ég bíð eftir meira afgerandi niðurstöðum til að koma í veg fyrir alla skandala. Búinn að hanga of mikið í tölvunni undanfarið í hinum kengimagnaða íslenska tölvuleik Eve-online er komin með nóg af þessu tölvuhangsi í bili. Þetta er eins og Valli vinur minn sagði um daginn ekkert annað en fíkn, en hann var einmitt að tala um CM, þessir leikir eru ekki ólíkir af því leyti að maður getur gleymt sér allt of lengi í þeim og misst af umheiminum á meðan. Ég er semsagt að spá í því að vera í sambandi við umheiminn í kvöld og skella mér í Sundhöllina en þar er sundlaugarpartý Borgó og MH og síðan mun maður kíkja á LA café á bjórkvöld Borgó. Umheimurinn heldur áfram að vera í kontakti við mig á morgun því ég mun fara í elliðaárgöngu, kíkja niðrá Austurvöll ef veður leyfir, drekka nokkra glóðvolga og skella mér svo á tónleika Mammút, Maus og æi............ég er svo meingallaður annskotans djöfull að ég man ekki hver hin hljómsveitin er...............allavega örugglega eitthvað gaman þar, er ekki einhver sem getur verið klárari en ég og bent á það hver hin hljómsveitin er??


miðvikudagur, apríl 14, 2004

Að velta hlutunum fyrir sér.....

Hef verið að velta ýmsu fyrir mér og oftar en ekki hefur sú velta ekki skilað tilætluðum árangri, þ.e.a.s. ég hef ekki komist að neinni sérstakri niðurstöðu. Ég er samt sem áður þeirrar skoðunar að í öll þau skipti sem ég hef velt sjálfsögðum hlutum fyrir mér þá hef ég lært á því eitthvað sem ég hefði annars ekki lært. Held að það skipti miklu meira máli en margir halda að velta öllu fyrir sér, sama hversu litlu máli það virðist skipta.

Er t.d. núna að velta því fyrir mér hvort að ástin sé orsök eða afleiðing. Ef hún er orsök þá orsakar hún allt það góða í heiminum en ef hún er afleiðing þá orsakast hún af öllu því góða í heiminum. Ég hallast frekar af því að ástin sé orsök alls þess góða, hún sé frumkraftur þess góða í heiminum og að í raun sé ástin það sem að allir leita að, sumir finna hana aðrir ekki. Þeir sem finna ekki ástina eiga þessvegna auðvelt með að tengjast hatrinu og þar af leiðandi því vonda í heiminum, þetta er frekar einfalt dæmi, ástin er þessvegna Guð og hatrið er Satan. Hvað sem að við köllum þessi öfl þá eru þau til, það er til eitthvað gott og það er til eitthvað slæmt og það skiptir engu máli hvað við köllum það, það eina sem skiptir máli er að við höfum vitneskjuna um að þessi öfl séu til.


mánudagur, apríl 12, 2004

Það er komin ný könnun, hef alltaf verið að velta fyrir mér hvor sé í raun myndarlegri Raggi eða Einar. Til að komast að því þá smellti ég einfaldlega upp könnun um þetta mál, tveir heitustu gaurarnir á klakanum munu berjast til seinasta blóðdropa um hvor sé fegurri nú er það ykkar að velja.........


Jæja þá er kadlinn kominn heim. Veturinn er bara floginn frá manni og sumarið er framundan. Það þýðir einfaldlega það að ég verð að fara að sækja um vinnu, ef ég fæ ekki vinnu þá fer ég eitthvert út og flippa bara í sumar, ég nenni ekki að hangsa hérna og gera ekkert, nenna því ábyggilega fáir.

Andri Snær stendur alltaf fyrir sínu, hvet alla til þess að lesa bakþanka hans sem voru í Fréttablaðinu á Laugardag, eins og talað úr mínum munni, ekki í fyrsta sinn sem hann talar úr mínum munni. það sem hann var að segja var einfaldlega það að átökin í Ísrael og Palestínu byggðust á ofsatrú og eina leiðin til að leysa þau væri í gegnum ofsatrú. Það er engin pólitísk lausn á þessum vanda þar sem að sagan hefur sýnt það að pólitíkin leysir þennan vanda aldrei. Þessvegna er eina leiðin sem er vænleg til árangurs að breiða út boðskap kærleika og friðar og nota það gegn hatrinu, ekkert fær sigrað ástina, eða eitthvað í líkingu við þetta, ég var allavega hjartanlega sammála kauðanum og þetta snart mig.

Skólinn á hindaginn og þá hittir maður liðið aftur, ég er kominn með svo upp í kok af skólanum að það er alveg óskiljanlegt í rauninni, vá hvað mig hlakkar til sumarsins..........


föstudagur, apríl 09, 2004

Heimspeki er allt og heimspeki er ekkert.
Heimspeki er það að finna heiminn,
alla kanta hans og athuga hvort að einhversstaðar
sé svarið við dýpstu spurningum mannsins.
Heimspeki er okkar eina von um sannleika,
eins langt og sannleikurinn nær.
Heimspeki er það eina sem við höfum..........

þessvegna hef ég ákveðið að leyfa ykkur að lesa aðeins um heimspeki kierkegaards þar sem að hann var býsna skemmtilegur og merkilegur heimspekingur, og ekki spillir fyrir að hann var dani.......

Heimspeki Kierkegaards snýst mest megnis um frelsi mannsins til að velja. Valfrelsi, Hann telur það vera þýðingarmeira en allt annað vegna þess að maðurinn verður alltaf að miklu leyti það sem hann velur. Flestir menn eru þessvegna mjög hræddir við að taka ákvarðanir um líf sitt og reyna eftir fremsta megin að fresta þeim eins lengi og hægt er. Hver ákvörðun breytir lífi okkar, hún útilokar vissa möguleika og opnar aðra, þetta vekur ótta mannsins. Allar ákvarðanir eru bindandi fyrir okkur í framtíðinni, óþekktri framtíð okkar, það er þessvegna mikil áhætta sem fylgir því að velja sjálfur.
Valfrelsinu fylgir alltaf sú tilfinning sem existentialistar nefna angist, tilfinning sem er sérkenni mannsins. Dýrin þekkja hana ekki vegna þess að þau stjórnast aðeins af hvötum sínum.

Það er útfrá þessu sem megin gagnrýni Kierkegaards sprettur. Hann bendir á líf broddborgarans sem einkennist algjörlega af siðum, reglum og venjum þess samfélags sem hann lifir í. Broddborgarinn telur sig aftur á móti vera fullveðja mann með sjálfstæðar ákvarðanir og frjálsan vilja. Slíkur maður segir Kierkegaard að sé upptekinn af því tímanlega, eigi fjölskyldu og njóti virðingu samborgaranna sem ekki taka eftir því að hann vanti sjálf í dýpri skilningi. Lífskostir hans ráðast algjörlega af leikreglum samfélagsins, af því einu hvernig maður „á að vera“, hann hefur enga sjálfstæða lífsstefnu. Broddborgarinn þjónar þeim öflum sem hann gengur fyrir, án þessara afla er hann ekki neitt, allt hans líf snýst um þessi ytri skilyrði.

Slíkur maður myndi á ábyrgðafullan hátt ávallt framfylgja skipunum ráðandi afla, hvort sem þær væru í Auschwitz eða þá á vígstöðvum í Írak. Gangverk kerfisins gefur lífi broddborgarans merkingu, hans sjálf er ekkert, hann hefur glatað sjálfinu. Þessi gagnrýni Kierkegaards er mjög svo merkileg og á alveg jafn vel við á okkar tímum jafnt sem hans. Það er einfaldlega þannig að fólk kýs það að þurfa ekki að taka ákvarðanir sjálft, það vill fara auðveldu leiðina, vegna þess að hún er örugg og þægileg.

Maðurinn hefur val, hann á að nýta sér þetta val til að lifa eftir sinni eigin lífsstefnu, hann á að taka sínar eigin ákvarðanir, erfiðar jafnt sem auðveldar vegna þess að þannig nær hann að verða sannur einstaklingur. „einstaklingurinn er undantekning“ sagði Kierkegaard og átti þar við þá einföldu staðreynd að langflestir kysu að vera típískir broddborgar í stað þess að rísa upp og verða sannir einstaklingar. Þetta minnir óneitanlega á kenningar Nietzche um ofurmennið og það að alvöru einstaklingar skuli rísa upp yfir meðalmennskuna.



fimmtudagur, apríl 08, 2004

Reunion í gær, þar hitti ég margt fólk sem ég hef ekki hitt lengi, ég titlaði þá sem höfðu skarað fram úr úr árganginum. Í þriðja sæti var Siggi afþví að hann er góðvinur minn og ég ákvað að misnota aðstöðu mína. Í öðru sæti voru félagarnir Benni og Guðberg afþví að þeir unnu hönnunarkeppni og eru þar af leiðandi frekar klárir strákar. Í fyrsta sæti var Steinþór Helgi og var það að ég held alveg óumdeilanleg kosning, annað og þriðja sætið er eitthvað sem má alveg deila um. Árgangurinn er troðfullur af hæfileikaríku fólki, mis hæfileikaríku en hæfileikaríku samt og það er erfitt að velja fólk útúr hópnum. Ég vil benda á það að Siggi var valinn sem fulltrúi alþýðunnar sem týnist alltaf á bakvið hina þó svo að hann sé að gera góða hluti. Þannig að ég held að þetta hafi bara verið ágæt kosning hjá mér þó svo að kynjahlutföllin hafi verið brengluð. Gaman að hitta allt þetta fólk eftir svona langan tíma.

þriðjudagur, apríl 06, 2004

Það að við horfum á þetta fólk deyja á meðan að við stöndum á bak við ameríkanana í einu og öllu hlýtur að koma niður á okkur einhverntíman. Þegar Bandaríkjamenn eru drepnir þá er það hryðjuverk og við stöndum með þeim í einu og öllu og styðjum við hryðjuverk þeirra gegn saklausu fólki í Írak.

Fólkið á þessari mynd hefur lennt í hryðjuverka árás og það var her Ísraelsmanna sem myrti þetta fólk, og Íslenska þjóðin heldur kjafti, okkur er greinilega alveg skítsama um þessi mannslíf!! Við hljótum að fá þetta aftan í okkur síðar meir, það bara hlýtur að vera að við þurfum að svara fyrir þennan glæp. Þegar sá dagur rennur upp verðum við kröfð svara, Hversvegna horfðuð þið á morðin á Palestínumönnum og sögðuð ekkert? Hversvegna þögðuð þið ef þið vissuð að það var verið að stráfella fólk. Þið sáuð þessa mynd, þið sáuð saklaus börn liggjandi dauð í jörðinni, hversvegna samþykktuð þið þetta með þögninnni?? Hversvegna fannst ykkur allt í lagi að nútímalegt lýðræðisríki fremdi slík hryðjuverk gegn aröbum en voruð alveg brjáluð þegar múslímsk samtök myrtu fólk í Bandaríkjunum? Hversvegna vega mannslífin svona mismikið í hugum ykkar?

vesturlandarbúar sem teljið ykkur vera með nútímalegan hugsunargang hversvegna eruð þið svo brengluð og siðblind, hversvegna? Þetta Er spurning mannsins sem liggur dauður í jörðinni og spyr aftur, hversvegna gerir umheimurinn ekkert??



sunnudagur, apríl 04, 2004

Undanfarin vika hefur verið alveg hreint frábær. Æðislegt Glæsiball þar sem stemmingin var ógleymanleg. Gettu betur undirbúningurinn var skemmtilegur, saltgangan var einnig mjög skemmtileg og það voru allir bara í eitthvað svo góðu stuði. Þrátt fyrir tap þá hefur mér eiginlega sjaldan liðið betur, vegna þess að við tókum þessu af stakri prýði og skemmtum okkur öll saman eftir keppnina. Á Þjóðleikhúskjallaranum var allt troðið af Borghyltingum og fólk fagnaði strákunum eins og hetjum enda eru þeir ekkert annað en hetjur.

En gærkvöldið var en betra en Föstudagskvöldið. Afmælið hans Steina var ógleymanlegt, ræðurnar, skemmtiatriðin og bara allt var svo fullkomið þarna. Fólk úr öllum áttum mætti á svæðið og skemmti sér konunglega saman. Fólk kom þarna saman til að heiðra hetjuna hann Steinþór. Ég hef bara sjaldan eða aldrei skemmt mér eins vel og í gær, og ég held að flestir sem voru þarna séu sammála mér með það.

Kalli og Eiki voru flottir í Söngkeppninni en náðu ekki einu sinni í sæti, það skiptir samt litlu máli þar sem að atriði þeirra var bæði frumlegt og flott. Pálmasunnudagur í dag og maður er bara drullusáttur með þetta allt saman, Þóri systir, Danni og Ebí að koma til landsins á morgun!!


laugardagur, apríl 03, 2004

Beggi, Baldvin og Steini, Takk fyrir mig.

Ég vil þakka strákunum fyrir að leggja svo mikið á sig, það sem þeir hafa gefið okkur er í raun ómetanlegt. Þessir undanförnu mánuðir hafa verið æðislegir og andinn í Borgó hefur aldrei verið svo góður. Það að við vorum þarna í úrslitum en ekki einhverjir aðrir er ekki sjálfsagður hlutur, það er Begga, Baldvini og Steina að þakka. Við vitum að við erum með sterkasta liðið og við vitum að þeir klára verkefnið sem var lagt fyrir þá, þeir sækja hljóðnemann fyrir okkur að ári, það er ekki spurning!!

Ég segi bara takk fyrir mig, það er ekkert skemmtilegra en að hvetja ykkur til sigurs, því ég veit hvað býr í ykkur og ég veit að þið glatið tækifærinu ekki að ári.


föstudagur, apríl 02, 2004

Versló fær klárlega prik fyrir að reyna að svara saltgöngunni en það sýndi sig að þeir eru ekki eins mikil hörkutól og Borgarar, að hengja upp borða og halda að það sé nægilegt svar er náttlega ekki alveg að virka.


fimmtudagur, apríl 01, 2004

Borgó er vél!!

Synir Sharons unnu undanúrslitin með 180 stiga sigri þrátt fyrir að vera mun leiðinlegri en Norðanmenn, þeir voru einfaldlega allt of beisikk að manni klígjaði eiginlega bara. Frasar eins og frelsi einstaklingsins svo framarlega sem það skaðar ekki aðra fékk all nokkrum sinnum að fjúka og satt best að segja þá sökkaði það frekar mikið. Saltgangan í versló stóð undir nafni og var vel fjörug. Um 80-90 manns fjölmennti upp í Versló og tóku stuðningssöngva Borgara uppá marmara Verslinga og þeir áttu ekki séns í okkur, það var gaman og boðar gott fyrir morgundaginn. En ég þarf að flýta mér eilítið núna vegna þess að ég er að fara á Glæsiballið eftir einhverjar basískar fimm meinútur. Gettu betur er svo á morgun og þá munum við marsera upp í Smáralind og taka hana á okkar vald. Ég er í klassískustu fötum sem finnast á skerinu, jakkaföt sem voru keypt í London 1973, útvítt með blúndum og öllum græjum........