Heimspeki er allt og heimspeki er ekkert.
Heimspeki er það að finna heiminn,
alla kanta hans og athuga hvort að einhversstaðar
sé svarið við dýpstu spurningum mannsins.
Heimspeki er okkar eina von um sannleika,
eins langt og sannleikurinn nær.
Heimspeki er það eina sem við höfum..........
þessvegna hef ég ákveðið að leyfa ykkur að lesa aðeins um heimspeki kierkegaards þar sem að hann var býsna skemmtilegur og merkilegur heimspekingur, og ekki spillir fyrir að hann var dani.......
Heimspeki Kierkegaards snýst mest megnis um frelsi mannsins til að velja. Valfrelsi, Hann telur það vera þýðingarmeira en allt annað vegna þess að maðurinn verður alltaf að miklu leyti það sem hann velur. Flestir menn eru þessvegna mjög hræddir við að taka ákvarðanir um líf sitt og reyna eftir fremsta megin að fresta þeim eins lengi og hægt er. Hver ákvörðun breytir lífi okkar, hún útilokar vissa möguleika og opnar aðra, þetta vekur ótta mannsins. Allar ákvarðanir eru bindandi fyrir okkur í framtíðinni, óþekktri framtíð okkar, það er þessvegna mikil áhætta sem fylgir því að velja sjálfur.
Valfrelsinu fylgir alltaf sú tilfinning sem existentialistar nefna angist, tilfinning sem er sérkenni mannsins. Dýrin þekkja hana ekki vegna þess að þau stjórnast aðeins af hvötum sínum.
Það er útfrá þessu sem megin gagnrýni Kierkegaards sprettur. Hann bendir á líf broddborgarans sem einkennist algjörlega af siðum, reglum og venjum þess samfélags sem hann lifir í. Broddborgarinn telur sig aftur á móti vera fullveðja mann með sjálfstæðar ákvarðanir og frjálsan vilja. Slíkur maður segir Kierkegaard að sé upptekinn af því tímanlega, eigi fjölskyldu og njóti virðingu samborgaranna sem ekki taka eftir því að hann vanti sjálf í dýpri skilningi. Lífskostir hans ráðast algjörlega af leikreglum samfélagsins, af því einu hvernig maður „á að vera“, hann hefur enga sjálfstæða lífsstefnu. Broddborgarinn þjónar þeim öflum sem hann gengur fyrir, án þessara afla er hann ekki neitt, allt hans líf snýst um þessi ytri skilyrði.
Slíkur maður myndi á ábyrgðafullan hátt ávallt framfylgja skipunum ráðandi afla, hvort sem þær væru í Auschwitz eða þá á vígstöðvum í Írak. Gangverk kerfisins gefur lífi broddborgarans merkingu, hans sjálf er ekkert, hann hefur glatað sjálfinu. Þessi gagnrýni Kierkegaards er mjög svo merkileg og á alveg jafn vel við á okkar tímum jafnt sem hans. Það er einfaldlega þannig að fólk kýs það að þurfa ekki að taka ákvarðanir sjálft, það vill fara auðveldu leiðina, vegna þess að hún er örugg og þægileg.
Maðurinn hefur val, hann á að nýta sér þetta val til að lifa eftir sinni eigin lífsstefnu, hann á að taka sínar eigin ákvarðanir, erfiðar jafnt sem auðveldar vegna þess að þannig nær hann að verða sannur einstaklingur. „einstaklingurinn er undantekning“ sagði Kierkegaard og átti þar við þá einföldu staðreynd að langflestir kysu að vera típískir broddborgar í stað þess að rísa upp og verða sannir einstaklingar. Þetta minnir óneitanlega á kenningar Nietzche um ofurmennið og það að alvöru einstaklingar skuli rísa upp yfir meðalmennskuna.